top of page

Glæný bók á leiðinni

Fyrir tæpri viku síðan fór glæný bók eftir mig í prentun í Póllandi. Hún er sérstök fyrir þær sakir að hún er ótengd hinum tveimur seríunum sem ég hef gefið út (önnur um Ótrúleg Ævintýri Afa, hin um Stelpuna sem lendir í ótrúlegum atburðum). Þessi hérna er fyrsta af (vonandi) mörgum léttlestrarbókum um hundinn Spora og kettlinginn Tása.

Sjá þessa forsíðu!

Hún heitir Hundurinn með hattinn og er myndskreytt á einstaklega skemmtilegan hátt af teiknaranum Anna Baquero. Sagan sækir innblástur í gamla reyfara þar sem spæjarar þurfa að komast til botns í dularfullum málum. Aftan á henni segir:

Allir vita að enginn er betri í að leysa ráðgátur en Spori, hundurinn með hattinn. En þegar dularfullur þjófnaður dregur úr honum kjarkinn, þá lendir það á kettlingnum Tása að stappa í hann stálinu. Saman lenda þeir í lævísum refum, skuggalegum smáhundum og svakalegum heilabrotum í þessu þrælskemmtilega ævintýri.

Bókin kemur í verslanir von bráðar og mér þætti óskaplega vænt um að foreldrar myndu grípa eintak handa hungruðum lestrarhestunum sínum. Línubil, letur og stærð bókarinnar eru sérhönnuð til að styðja við bakið á nýjum lesendum. Svo skilst mér að verðið sé gjöf en ekki gjald.

Áfram lestur, allan ársins hring!

Recent Posts
Archive
bottom of page